Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 534 . mál.


Nd.

1140. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 64/1981, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hl. heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Frumvarp þetta var lagt fram til að gera nokkrar úrbætur á lögum um atvinnleysistryggingar. Þeir sem sömdu frumvarpið urðu sammála um allar greinar þess nema eina, þ.e. 1. gr. sem tekur til 3. gr. núgildandi laga. Í greininni er sá hópur launamanna, sem á rétt á atvinnuleysisbótum, skilgreindur. Samkvæmt núgildandi lögum eiga þeir launamenn einir rétt á atvinnuleysisbótum sem eru í stéttarfélögum, þó ekki opinberir starfsmenn. Tvö sjónarmið komu upp í nefndinni sem samdi frumvarpið. Annars vegar að réttur til atvinnuleysisbóta næði til allra félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem ættu aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði eða yrðu síðar aðilar að sjóðnum. Hins vegar að allir launamenn ættu rétt til greiðslna úr sjóðnum, hvort sem þeir væru innan stéttarfélaga eða utan.
    Um þetta er fjallað í athugasemdum við frumvarpið en þar segir:
    „Nefndin er sammála um að leggja til breytingar á þessari grein, en greinin útilokar nú nokkrar tilgreindar stéttir frá atvinnuleysisbótum. Helmingur nefndarmanna vill að fellt verði niður það skilyrði bótaréttar að hlutaðeigandi umsækjandi sé í stéttarfélagi, enda telja þeir að skilyrði um aðild að stéttarfélagi brjóti í bága við félagsmálasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að.“ (Bls. 2–3.)
    Í skýrslu félagsmálaráðherra um 76. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1989 kemur fram að Íslendingar hafa fengið alvarlegar ákúrur vegna brota á rétti fólks utan stéttarfélaga til atvinnuleysisbóta. Í fylgiskjali IV. við skýrslu félagsmálaráðherra eru birtar athugasemdir nefndar óháðra sérfræðinga við framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu. Í athugasemdum við 5. gr. segir m.a.:
    „Nefndin veitti því enn fremur athygli að samkvæmt lögum nr. 64/1981 eiga aðeins félagar í stéttarfélögum rétt á atvinnuleysisbótum. Með tilliti til þess að það að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus er óverjandi ráðstöfun, sem hefur þann tilgang að neyða hann til að ganga í eða vera áfram félagi í stéttarfélagi, hlaut nefndin að komast að þeirri niðurstöðu að ofangreind lög brytu í bága við anda og bókstaf 5. gr. sáttmálans.“ (Bls. 44.)
    Það er skoðun 2. minni hl. nefndarinnar að ekki sé verjandi að sniðganga það álit sem hér kemur fram.
    Í umfjöllun um frumvarp þetta í nefndinni kom fram að meiri hl. nefndarmanna vildi framfylgja þessum ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu og að breytingartillögur yrðu lagðar fram við frumvarpið sem tryggðu öllum launamönnum rétt til atvinnuleysisbóta. Þær breytingartillögur voru síðan fluttar af 1. minni hl. og mun 2. minni hl., sem kaus að skila séráliti til að gera nánari grein fyrir afstöðu sinni, styðja þær tillögur.
    Skiptar skoðanir eru um þetta mál meðal forsvarsmanna stórra stéttarfélaga. Fulltrúi ASÍ í nefnd þeirri, er samdi frumvarp þetta, mælti ekki með því að farið yrði að tilmælum sérfræðinganefndarinnar, en í umsögn BHMR um frumvarpið er Alþingi hvatt til að breyta 3. gr. gildandi laga til samræmis við ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu.
    Það er skoðun 2. minni hl. að virða beri félagsmálasáttmála Evrópu í hvívetna. Benda má á að umrædd gagnrýni sérfræðinganefndarinnar varðar 5. gr. hans, en í henni eru ákvæði um að ekki megi skerða rétt einstaklings til að vera í stéttarfélagi né heldur megi lög um stéttarfélög skerða réttindi nokkurs einstaklings. 2. minni hl. telur réttinn til þátttöku í stéttarfélagi grundvallarrétt hvers manns. Því sé þversagnarkennt að vilja aðeins framfylgja þeim hluta 5. gr. er varðar rétt til að vera í stéttarfélagi en hunsa önnur réttindi sem einnig eru tryggð í greininni.
    Það eru ótvíræðir hagsmunir að eiga rétt á að mynda með sér stéttarfélög. Meginstyrkur stéttarfélaga felst í samtakamættinum. Með sameiginlegu átaki er hægt að ná verulegum árangri eins og saga stéttarfélaga á Íslandi frá upphafi ber glöggt vitni. Ræki stéttarfélög þetta hlutverk sitt og séu þau ótvíræðir málsvarar félagsmanna sinna gefur auga leið að þeir munu telja hag sínum best borgið með því að beita samtakamætti sínum innan félaganna.
    Það var fyrir samtakamátt fólksins innan stéttarfélaganna að réttur manna til atvinnuleysisbóta var fyrst tryggður. Nú efast enginn lengur um þennan rétt og hann er m.a. tryggður í félagsmálasáttmála Evrópu sem við eigum aðild að. Hér er um sjálfsögð mannréttindi að ræða og aðild að stéttarfélögum á ekki að vera aðgöngumiði að þeim. En önnur brýn verkefni bíða stéttarfélaganna og þeim er nauðsynlegt að beita samstöðunni ef unnt á að vera að bæta úr því smánarlega ástandi sem nú ríkir í samfélagi þar sem full dagvinnulaun nægja engan veginn til framfærslu.
    Fjárhagslega er ekkert því til fyrirstöðu að stíga þetta mikilvæga skref nú þegar. Á Íslandi eru langflestir launamenn innan stéttarfélaga. Fjöldi þeirra sem á rétt til atvinnuleysisbóta ef allir launamenn öðlast þann rétt verður því litlu meiri en nú er. Atvinnuleysistryggingasjóður er að stórum hluta fjármagnaður af almannafé. Vinnuveitendur launþega utan stéttarfélaga greiða til sjóðsins eins og aðrir vinnuveitendur. Því er ekki hægt að líta svo á að launþegar innan stéttarfélaga eigi meiri rétt til greiðslna úr sjóðnum en aðrir launþegar.
    Annar minni hl. mun því styðja breytingartillögu 1. minni hl. og frumvarpið í heild svo breytt.

Alþingi, 30. apríl 1990.



Anna Ólafsdóttir Björnsson,


fundaskr.